Öryggi þitt

Öryggi þitt er grundvallaratriði í öllu sem við gerum.

Ef upplýsingarnar þínar eru ekki öruggar eru þær ekki lengur einkamál þitt. Þess vegna tryggjum við að þjónusta Google, svo sem leitin, Kort og YouTube, njóti verndar eins öruggasta öryggiskerfis sem til er í heiminum.

Dulkóðun heldur gögnunum þínum öruggum við sendingu

Dulkóðun veitir þjónustu sem þú notar aukið öryggi og persónuvernd. Þegar þú til dæmis sendir tölvupóst, deilir myndskeiði, ferð á vefsvæði eða vistar myndirnar þínar fara gögnin sem verða til á milli tækisins þíns, Google þjónustunnar og gagnavera okkar. Við verjum þessi gögn með marglaga öryggisráðstöfunum, þar á meðal framsækinni dulkóðunartækni á borð við HTTPS- og TLS-dulkóðun.

Uppbygging skýsins verndar gögnin þín öllum stundum

Google notar allt frá sérhönnuðum gagnaverum til sæstrengja sem flytja gögn milli heimsálfa til þess að reka eitt öruggasta og traustasta skýjakerfi sem þekkist í heiminum. Stöðugt er haft eftirlit með því til að tryggja að gögnin þín séu örugg og aðgengileg þegar þú þarft á þeim að halda. Í raun dreifum við gögnum milli mismunandi gagnavera svo að ef upp kemur eldur eða náttúruhamfarir dynja á er hægt að flytja þau á sjálfvirkan og hnökralausan hátt á traustan og öruggan stað.

Greining á hættu hjálpar okkur að tryggja öryggi þjónustu okkar

Við fylgjumst stöðugt með þjónustu okkar og undirliggjandi kerfum til að vernda þau gegn hættu, þar á meðal ruslefni, spilliforritum, vírusum og skaðlegum kóða af öðru tagi.

Við gefum stjórnvöldum ekki beinan aðgang að gögnunum þínum

Við gefum aldrei aðgang „bakdyramegin“ að gögnunum þínum eða þjónum okkar þar sem gögnin þín eru geymd. Punktur. Þetta þýðir að engin stjórnvöld, hvorki bandarísk né önnur, hafa beinan aðgang að upplýsingum notenda okkar. Stundum fáum við beiðnir frá lögregluyfirvöldum um að afhenda gögn tiltekins notanda. Starfsfólk í lagadeild okkar fer yfir þessar beiðnir og andæfir ef beiðni er of víðtæk eða fylgir ekki réttu ferli. Við leggjum áherslu á að veita greinargóðar upplýsingar um þessar gagnabeiðnir í gagnsæisskýrslu okkar.

Dulkóðun út úr mynd af Eiffelturninum

Dulkóðun Gmail heldur tölvupóstinum öruggum

Allt frá upphafi hefur Gmail verið með stuðning við dulkóðaðar sendingar, sem gerir óprúttnum aðilum erfiðara fyrir að lesa það sem þú sendir. Gmail varar þig einnig við hugsanlegum öryggishættum, svo sem þegar þú færð tölvupóst sem ekki var sendur í gegnum dulkóðaða tengingu.

Umslag tölvupósts í Gmail kveikir á varúðarmerki öryggisskanna

Vörn gegn ruslpósti í Gmail síar burt grunsamlegan tölvupóst

Margar árásir spilliforrita og vefveiða hefjast með tölvupósti. Öryggiseiginleikar Gmail vernda þig gegn ruslpósti, vefveiðum og spilliforritum, betur en nokkur önnur tölvupóstþjónusta. Gmail greinir mynstur sem lesa má úr milljörðum skeyta til að koma auga á einkenni tölvupóstskeyta sem notendur hafa merkt sem ruslpóst, og notar svo niðurstöðurnar til að loka á grunsamlegan og hættulegan tölvupóst áður en hann kemst til þín. Þú getur hjálpað til með því að velja „Tilkynna ruslpóst“ þegar þú færð send ruslskeyti.

Vélrænt nám og gervigreind hjálpa ruslpóstsíu Gmail að verða enn nákvæmari. Eins og er heldur hún 99,9% ruslpósts frá pósthólfinu þínu.

Chrome vafri í miðri öryggisuppfærslu

Chrome uppfærir öryggi vafrans þíns sjálfkrafa

Öryggistækni er í sífelldri þróun, og því er hluti af því að tryggja öryggi sitt að vera ávallt með nýjustu útgáfu. Þess vegna athugar Chrome reglulega hvort útgáfa vafrans þíns er uppfærð með nýjustu öryggislagfæringunum og vörn gegn spilliforritum, fölsuðum vefsvæðum og fleira. Chrome uppfærist sjálfkrafa svo þú getur treyst því að nýjasta öryggistækni Chrome stendur ávallt vörð um öryggi þitt.

Spilliforrit læðist inn í tæki

Google Play heldur forritum sem kunna að vera skaðleg frá símanum þínum

Ein helsta hættan sem steðjar að tækjunum þínum eru forrit sem þú setur upp á þeim. Greiningarkerfi okkar flaggar forrit sem kunna að vera skaðleg áður en þau komast inn í Play Store. Ef við erum ekki viss um að forrit sé öruggt sjá starfsmenn öryggisdeildar Android um að yfirfara það handvirkt. Við fínstillum greiningarkerfi okkar í sífellu og enduryfirförum forrit sem þegar eru á Google Play, og fjarlægjum þau sem gætu verið skaðleg, svo þú endir ekki með þau á tækinu þínu.

Google lokar á falskar og villandi auglýsingar

Þú gætir lent í ógöngum á internetinu vegna auglýsinga sem innihalda spilliforrit, liggja yfir efninu sem þú vilt skoða, bjóða falsaðar vörur eða brjóta á annan hátt gegn auglýsingareglum okkar. Þetta er vandamál sem við tökum mjög alvarlega. Á ári hverju lokum við á hátt í milljarð vafasamra auglýsinga, með hjálp starfsfólks okkar og háþróaðs hugbúnaðar. Við bjóðum einnig upp á verkfæri þar sem þú getur tilkynnt móðgandi auglýsingar og stjórnað því hvernig auglýsingar þú sérð. Við komum þekkingu okkar og aðferðum einnig á framfæri til að hjálpa til við að gera internetið að öruggari stað fyrir alla.

Góð ráð um öryggi á netinu

Verndaðu netreikningana þína og persónuleg gögn með því að fylgja þessum ráðum.

  • Verndaðu tækin þín

  • Forðastu tilraunir til vefveiða

  • Gættu öryggis þegar þú vafrar á netinu

Skjöldur og gátlisti fyrir Google öryggi

Búðu til traust aðgangsorð

Mikilvægasta atriðið til að vernda netreikningana þína er að búa til sterkt og traust aðgangsorð. Þú getur gert þetta með því að búa til röð orða sem þú gleymir ekki, en sem aðrir eiga erfitt með að giska á. Einnig geturðu notað langa setningu og búið til aðgangsorð úr upphafsstöfum hvers orðs. Til þess að aðgangsorðið verði enn sterkara skaltu hafa það minnst 8 stafi að lengd vegna þess að því lengra sem aðgangsorðið er, því sterkara er það.

Ef þú ert beðin(n) um að búa til svör við öryggisspurningum skaltu íhuga að nota röng svör til að enn erfiðara verði að giska á þau.

Notaðu aldrei sama aðgangsorð tvisvar

Notaðu sérstakt aðgangsorð fyrir hvern reikning

Ef þú notar sama aðgangsorðið til að skrá þig inn á marga reikninga, eins og Google reikninginn þinn, samfélagsmiðla og vefverslanir, eykst öryggisáhættan. Það er svipað og að nota sama lykilinn að heimilinu, bílnum og skrifstofunni – ef einhver fær aðgang að einu þeirra gætu þau öll verið í hættu.

Hafðu yfirsýn yfir öll aðgangsorð

Umsjón með aðgangsorðum, eins og Google Smart Lock í Chrome vafranum, hjálpar þér að vernda og hafa yfirsýn yfir öll aðgangsorðin fyrir mismunandi netreikninga. Þú getur einnig haft yfirsýn yfir svör við öryggisspurningum og látið búa til aðgangsorð af handahófi fyrir þig.

Verðu þig gegn hökkurum með tvíþættri staðfestingu

Tvíþætt staðfesting ver reikninginn þinn fyrir öllum sem ekki eiga að hafa aðgang að honum með því að krefjast frekari staðfestingar til viðbótar við notandanafnið þitt og aðgangsorðið til að skrá þig inn á reikninginn. Hjá Google getur þetta til dæmis verið sex stafa kóði sem forritið Google Authenticator býr til eða kvaðning í Google forritinu þínu um að samþykkja innskráningu frá traustu tæki.

Til að verja þig enn frekar gegn vefveiðum geturðu notað sérstakan öryggislykil sem er stungið inn í USB-tengið á tölvunni þinni eða sem er tengdur við fartækið þitt með NFC (nándarsamskipti) eða Bluetooth.

Haltu hugbúnaðinum þínum uppfærðum

Til að verja þig gegn öryggisveikleikum skaltu alltaf nota uppfærðan hugbúnað í vafranum, stýrikerfinu, viðbótum og skjalaritlum. Þegar þú færð tilkynningu um að uppfærsla sé í boði fyrir hugbúnað skaltu samþykkja hana eins skjótt og auðið er.

Farðu reglulega yfir hugbúnaðinn sem þú notar til að ganga úr skugga um að þú sért alltaf með nýjustu tiltækar útgáfur. Sum þjónusta, þar á meðal Chrome vafrinn, uppfærir sig sjálfkrafa.

Notaðu skjálás

Þegar þú ert ekki að nota tölvuna þína, fartölvuna, spjaldtölvuna eða símann skaltu læsa skjánum til að koma í veg fyrir að aðrir komist inn í tækið. Auktu öryggið með því að stilla tækið á að læsa sér sjálfkrafa þegar það fer í hvíldarstöðu.

Læstu símanum þínum ef þú týnir honum

Ef síminn þinn týnist eða honum er stolið skaltu opna Reikningurinn minn og velja „Finndu símann þinn“ til að verja gögnin þín í nokkrum einföldum skrefum. Hvort sem þú ert með Android eða iOS-tæki geturðu fundið símann með fjartengingu og læst honum til að enginn annar geti notað símann þinn og komist í persónuupplýsingarnar þínar.

Vafri sýnir aðgangsorð sem eru varin í Chrome

Ekki vera með forrit í símanum sem eru hugsanlega skaðleg

Sæktu alltaf snjallforrit frá traustum uppruna. Til að tryggja öryggi Android tækja keyrir Google Play Protect öryggisathugun á forrit úr Google Play Store áður en þú getur sótt þau og athugar reglulega hvort skaðleg forrit annars staðar frá eru í tækinu þínu.

Til að vernda gögnin þín:

  • Farðu yfir forritin þín og eyddu þeim sem þú notar ekki
  • Opnaðu stillingar forritaverslunarinnar og kveiktu á sjálfvirkum uppfærslum
  • Veittu eingöngu forritum sem þú treystir aðgang að viðkvæmum gögnum, eins og staðsetningu og myndum

Varastu tölvupóstsvindl, falsaða vinninga og gjafir

Skeyti frá ókunnugum eru alltaf grunsamleg, sérstaklega ef innihaldið virðist vera of gott til að vera satt – eins og tilkynningar um að þú hafir unnið eitthvað, boð um verðlaun fyrir að fylla út könnun eða auglýsingar um skjótfenginn gróða. Aldrei smella á grunsamlega tengla og aldrei færa persónuupplýsingar inn í vafasöm eyðublöð og kannanir.

Vertu á varðbergi gagnvart beiðnum um persónuupplýsingar

Ekki svara grunsamlegum tölvupósti, spjallskilaboðum eða sprettigluggum þar sem beðið er um persónuupplýsingar eins og aðgangsorð, bankareikninga og kreditkortanúmer, eða jafnvel afmælisdaginn þinn. Jafnvel þótt skilaboðin komi frá vefsvæði sem þú treystir, eins og bankanum þínum, skaltu aldrei smella á tengilinn eða svara. Þess í stað skaltu fara beint á viðkomandi vefsvæði eða forrit til að skrá þig inn á reikninginn þinn.

Mundu að ósvikin vefsvæði og þjónusta senda ekki skilaboð til að biðja þig um að senda aðgangsorð eða upplýsingar um fjármál í tölvupósti.

Gættu þín á þeim sem villa á sér heimildir

Ef einhver sem þú þekkir sendir þér tölvupóst en skeytið hljómar undarlega gæti einhver hafa brotist inn á reikning viðkomandi.

Gættu þín á:

  • Áríðandi beiðnum um peninga
  • Ef viðkomandi segist vera strandaglópur í útlöndum
  • Ef viðkomandi segir að símanum sínum hafi verið stolið og ekki sé hægt að hringja í sig

Ekki svara skeytinu eða smella á neina tengla nema þú getir staðfest að tölvupósturinn sé ósvikinn.

Gaumgæfðu skrár áður en þú sækir þær

Sumar háþróaðar vefveiðaárásir geta átt sér stað gegnum smituð skjöl og PDF-viðhengi. Ef þú rekst á grunsamlegt viðhengi skaltu nota Chrome eða Google Drive til að opna það á öruggan hátt og draga úr hættunni á að það smiti tækið þitt. Ef við finnum vírus birtum við viðvörun.

Notaðu örugg netkerfi

Farðu varlega þegar þú notar opið eða ókeypis Wi-Fi, jafnvel þótt beðið sé um aðgangsorð. Þegar þú tengist opnu neti er mögulegt að allir í grenndinni geti fylgst með því sem þú gerir á netinu, svo sem hvaða vefsvæði þú opnar og hvaða upplýsingar þú slærð inn á vefsvæðum. Ef opið eða ókeypis Wi-Fi er eini kosturinn lætur Chrome vafrinn þig vita í veffangastikunni hvort vefsvæðið sé öruggt.

Leitaðu að öruggum tengingum áður en þú færir inn viðkvæmar upplýsingar

Þegar þú vafrar á vefnum – og sérstaklega ef þú hefur í hyggju að færa inn viðkvæmar upplýsingar eins og aðgangsorð eða kreditkortaupplýsingar – skaltu ganga úr skugga um að tengingin við vefsvæðin sem þú opnar sé örugg. Örugg vefslóð byrjar á HTTPS. Chrome vafrinn sýnir grænt hengilástákn í vefslóðarreitnum með orðunum „Secure“ (örugg). Ef hún er ekki örugg stendur „Not Secure“ (ekki örugg). HTTPS gætir öryggis þíns þegar þú vafrar með því að tengja vafrann þinn eða forritið þitt á öruggan hátt við vefsvæðin sem þú opnar.