Öryggi þitt
Öryggi þitt er grundvallaratriði í öllu sem við gerum.
Ef upplýsingarnar þínar eru ekki öruggar eru þær ekki lengur einkamál þitt. Þess vegna tryggjum við að þjónusta Google, svo sem leitin, Kort og YouTube, njóti verndar eins öruggasta öryggiskerfis sem til er í heiminum.
Dulkóðun heldur gögnunum þínum öruggum við sendingu
Dulkóðun veitir þjónustu sem þú notar aukið öryggi og persónuvernd. Þegar þú til dæmis sendir tölvupóst, deilir myndskeiði, ferð á vefsvæði eða vistar myndirnar þínar fara gögnin sem verða til á milli tækisins þíns, Google þjónustunnar og gagnavera okkar. Við verjum þessi gögn með marglaga öryggisráðstöfunum, þar á meðal framsækinni dulkóðunartækni á borð við HTTPS- og TLS-dulkóðun.
Uppbygging skýsins verndar gögnin þín öllum stundum
Google notar allt frá sérhönnuðum gagnaverum til sæstrengja sem flytja gögn milli heimsálfa til þess að reka eitt öruggasta og traustasta skýjakerfi sem þekkist í heiminum. Stöðugt er haft eftirlit með því til að tryggja að gögnin þín séu örugg og aðgengileg þegar þú þarft á þeim að halda. Í raun dreifum við gögnum milli mismunandi gagnavera svo að ef upp kemur eldur eða náttúruhamfarir dynja á er hægt að flytja þau á sjálfvirkan og hnökralausan hátt á traustan og öruggan stað.
Greining á hættu hjálpar okkur að tryggja öryggi þjónustu okkar
Við fylgjumst stöðugt með þjónustu okkar og undirliggjandi kerfum til að vernda þau gegn hættu, þar á meðal ruslefni, spilliforritum, vírusum og skaðlegum kóða af öðru tagi.
Við gefum stjórnvöldum ekki beinan aðgang að gögnunum þínum
Við gefum aldrei aðgang „bakdyramegin“ að gögnunum þínum eða þjónum okkar þar sem gögnin þín eru geymd. Punktur. Þetta þýðir að engin stjórnvöld, hvorki bandarísk né önnur, hafa beinan aðgang að upplýsingum notenda okkar. Stundum fáum við beiðnir frá lögregluyfirvöldum um að afhenda gögn tiltekins notanda. Starfsfólk í lagadeild okkar fer yfir þessar beiðnir og andæfir ef beiðni er of víðtæk eða fylgir ekki réttu ferli. Við leggjum áherslu á að veita greinargóðar upplýsingar um þessar gagnabeiðnir í gagnsæisskýrslu okkar.